Óvænt tap Bæjara – Dortmund vann

Erling Braut Haaland var einu sinni sem áður á skotskónum …
Erling Braut Haaland var einu sinni sem áður á skotskónum hjá Borussia Dortmund. AFP

Bayern München mistókst að tryggja sér þýska meistaratitilinn þegar liðið tapaði óvænt 1:2 gegn Mainz í þýsku 1. deildinni í dag. Á sama tíma vann Dortmund mikilvægan útisigur gegn Wolfsburg, þar sem Erling Braut Haaland skoraði tvennu.

Bæjarar lentu í vandræðum með Mainz sem náði forystunni strax á þriðju mínútu þegar Jonathan Burkhardt skoraði.

Á 37. mínútu tvöfaldaði Robin Quaison forystu heimamanna og staðan því 0:2 í hálfleik.

Hugmyndasnauðir Bæjarar minnkuðu muninn ekki fyrr en á fjórðu mínútu uppbótartíma og þar við sat.

Dortmund vann á sama tíma sterkan 2:0 sigur gegn Wolfsburg, þar sem Haaland skoraði mörk gestanna, sitt í hvorum hálfleiknum.

Sigurinn er afar mikilvægur þar sem Dortmund freistar þess að ná fjórða og síðasta Meistaradeildarsætinu.

Liðið er nú í 5. sæti þýsku 1. deildarinnar, einu stigi á eftir Eintracht Frankfurt, sem á þó leik til góða gegn Bayer Leverkusen núna klukkan 16.30.

Tveir aðrir leikir fóru fram í þýsku 1. deildinni í dag. Öll úrslit dagsins eru eftirfarandi:

Mainz - Bayern München 2:1

Wolfsburg – Borussia Dortmund 0:2

Freiburg – Hoffenheim 1:1

Union Berlín – Werder Bremen 3:1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert