Kristianstad vann góðan 2:1 sigur gegn Djurgården í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna í dag. Sveindís Jane Jónsdóttir reyndist hetja Kristianstad þegar hún skoraði sigurmark liðsins seint í leiknum, auk þess sem hún lagði upp fyrra markið.
Sveindís Jane lék allan leikinn í framlínu Kristianstad, þar sem hún atti kappi við Guðrúnu Arnardóttur, sem lék allan leikinn í vörn Djurgården. Sif Atladóttir kom svo inn á sem varamaður á 90. mínútu leiksins
Djurgården tók forystuna á 36. mínútu þegar Nellie Lilja skoraði.
Snemma í síðari hálfleiknum, á 49. mínútu, jafnaði Mia Carlsson fyrir Kristianstad eftir fyrirgjöf Sveindísar Jane.
Á 83. mínútu skoraði Sveindís Jane svo annað mark sitt í jafnmörgum leikjum og tryggði Kristianstad sigurinn.
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar lið Kristianstad, sem er í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir tvo leiki.
Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í vörn Rosengård þegar liðið vann góðan 3:1 heimasigur gegn Hammarby.
Liðið er þar með búið að vinna báða leiki sína í deildinni til þessa og er í efsta sæti með ögn betri markatölu en Häcken, sem hefur líka unnið báða leiki sína til þessa.