Rúnar Már Sigurjónsson varð í gærkvöld fyrstur íslenskra knattspyrnumanna til að skora mark í deildaleik í Rúmeníu þegar lið hans CFR Cluj tók á móti Universitatea Craiova í úrslitakeppninni um rúmenska meistaratitilinn.
CFR var undir í hálfleik, 0:1, en Rúnar jafnaði metin á 53. mínútu. Allt stefndi í jafntefli en varamaðurinn Alexandru Tudorie skoraði sigurmark Craiova rétt fyrir leikslok og CFR mátti sætta sig við ósigur á heimavelli, 1:2.
Þar með gæti CFR misst FCSB fjórum stigum fram úr sér á morgun en FCSB er með 39 stig, CFR 38 og Craiova er með 34 stig í þriðja sæti. FCSB, sem áður hét Steaua, tekur á mót CFR í toppslag næsta laugardag.
Rúnar lék í 68 mínútur með CFR í gær en þetta var sjötti deildaleikur hans fyrir félagið eftir að hann kom þangað frá Astana í Kasakstan seinni hluta vetrar.
Með markinu hefur Rúnar náð að skora í efstu deildum fimm landa, Íslands, Svíþjóðar, Sviss, Kasakstan og Rúmeníu.