Biður um leyfi til að taka við Bæjurum

Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri RB Leipzig.
Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri RB Leipzig. AFP

Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri RB Leipzig, hefur beðið forráðamenn liðsins um leyfi til að skipta yfir til Bayern München og taka við stjórnartaumunum þar í sumar.

Frá þessu er greint í þýska knattspyrnublaðinu Kicker og fleiri þýskum fjölmiðlum nú í morgun. Kicker greinir frá því að Bæjarar hafi þegar haft samband við Nagelsmann um að taka við knattspyrnustjórastöðunni af Hans Flick.

Flick bað sjálfur um að losna undan samningi hjá Bayern á dögunum en félagið hefur ekki viljað staðfesta að það muni verða við beiðni hans.

Hinn 33 ára gamli Nagelsmann hefur áður látið hafa eftir sér að hann myndi ekki yfirgefa Leipzig, þar sem hann er samningsbundinn til 2023, nema með fullum stuðningi og leyfi forsvarsmanna félagsins.

Bayern myndi þurfa að kaupa Nagelsmann út og myndi Leipzig koma til með að krefjast allt að rúmlega 30 milljónum evra, sem myndi gera hann að dýrasta knattspyrnustjóra sögunnar.

Jesse Marsch, bandarískur knattspyrnustjóri venslafélags Leipzig, Austurríkismeistara Red Bull Salzburg, er talinn líklegastur til að taka við Leipzig fái Nagelsmann að ganga til liðs við Bayern. Marsch var aðstoðarmaður Ralf Rangnick hjá Leipzig tímabilið 2018/2019 og hefur viðrað áhuga sinn á því að snúa aftur til Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert