Verður næstu þrjú árin í París

Keylor Navas leikur áfram með París SG.
Keylor Navas leikur áfram með París SG. AFP

Kostaríkamaðurinn Keylor Navas mun verja mark Frakklandsmeistara París SG áfram næstu þrjú árin en hann hefur nú gengið frá nýjum samningi við félagið.

Navas, sem er 34 ára gamall, kom til PSG frá Real Madrid árið 2019 en hann hafði þá varið mark spænska stórveldisins í fimm ár. Hann hafði spilað á Spáni frá 2010, með Albacete og Levante, en sló hressilega í gegn með landsliði Kostaríka á heimsmeistaramótinu í Brasilíu árið 2014 þegar liðið komst í átta liða úrslit. Þar skipaði hann sér á bekk með bestu markvörðum heims.

Navas hefur varið mark PSG í 46 deildarleikjum í Frakklandi og samtals í 72 mótsleikjum. Þar af hefur hann haldið markinu hreinu í 34 leikjum og hann er kominn með liðinu í undanúrslitin í Meistaradeild Evrópu. Í fyrra mátti hann sætta sig við ósigur gegn Bayern München í úrslitaleik keppninnar.

Navas á að baki 93 landsleiki fyrir Kostaríka og hefur fengið fjölmörg einstaklingsverðlaun fyrir frammistöðu sína með félagsliðum og landsliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert