Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur ákveðið að leyfa þátttökuþjóðum á EM 2021 að mæta til leiks með 26 manna leikmannahópa.
Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en undanfarin ár hafa leikmannahópar landsliða á Evrópumótinu verið skipaðir 23 leikmönnum.
Er þessi ákvörðun tekin í ljósi mikils álags á knattspyrnumenn undanfarin tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins.
Þá eru leikmannahóparnir einnig stærri en vanalega með það fyrir augum að ef leikmenn smitast af kórónuveirunni í lokakeppninni þá hafi þjálfarar meira svigrúm en ella til að gera breytingar.
EM hefst 11. júní næstkomandi og fer fram í ellefu borgum, víðs vegar að um Evrópu en mótinu lýkur 11. júlí með úrslitaleik á Wembley í London.