Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskonan unga, fer vel af stað í atvinnumennsku með Kristianstad í sænsku knattspyrnunni og hún var í dag útnefnd í lið umferðarinnar í Svíþjóð, aðra vikuna í röð, af Aftonbladet.
Sveindís hefur skorað í fyrstu tveimur leikjum Kristianstad sem er með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar. Aftonbladet valdi hana í úrvalslið sitt eftir fyrstu umferðina og varpaði þá fram þeirri spurningu hvort hún hefði ekki verið besti leikmaður deildarinnar í umferðinni. Hún gerði þá mark liðsins í 1:1 jafntefli við Eskilstuna.
Sveindís lagði síðan upp fyrra markið og skoraði síðan sigurmarkið í 2:1 sigri liðsins á Djurgården um síðustu helgi. Aftonbladet birti í dag úrvalslið sitt og þar er Sveindís öðru sinni.
Í umsögn um Keflvíkinginn segir Aftonbladet: „Þessi bráðefnilega íslenska stúlka var gagnrýnin á sjálfa sig eftir að hafa verið hetja liðsins í fyrsta heimaleiknum. Hún sagði að hún hefði getað gert betur og þetta hefði ekki verið hennar besti leikur. Og þetta sagði hún eftir að hafa bæði lagt upp jöfnunarmarkið fyrir Miu Carlsson og síðan lyft boltanum ísköld yfir markvörðinn á lokamínútum leiksins. Tvö mörk í tveimur leikjum og tvær tilnefningar af tveimur mögulegum í lið vikunnar.“