Engin endurkoma í kortunum

Neymar hefur verið lykilmaður í liði PSG undanfarin ár.
Neymar hefur verið lykilmaður í liði PSG undanfarin ár. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar er ánægður í herbúðum Frakklandsmeistara PSG en hann hefur verið orðaður við endurkomu til Barcelona undanfarin ár.

Neymar, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn franska félaginu til sumarsins 2022 en hann er nú í viðræðum við franska félagið um nýjan samning.

Sóknarmaðurinn gekk til liðs við PSG frá Barcelona á Spáni, sumarið 2017, fyrir tæplega 200 milljónir punda en hann er dýrasti knattspyrnumaður heims.

„Ég er samningsbundinn PSG og mér líður virkilega vel í París,“ sagði Neymar í samtali við L'Equipe.

„Ég hef sagt það áður að mér hefur aldrei liðið jafn vel hjá félaginu síðan ég kom sumarið 2017.

Félagið hefur tekið stórt stökk fram á við og nýtur meiri virðingar í knattspyrnuheiminum.

Ég vil vera áfram hérna og er í viðræðum um nýjan samning,“ bætti Neymar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert