Fyrsta konan sem þjálfar lið Evrópumeistaranna

Sonia Bompastor tekur við liði Lyon.
Sonia Bompastor tekur við liði Lyon. AFP

Sonia Bompastor, ein þekktasta knattspyrnukona Frakka á seinni árum, hefur verið ráðin þjálfari Evrópu- og Frakklandsmeistara Lyon í kvennaflokki og verður um leið fyrsta konan til að stýra aðalliði félagsins.

Bompastor er fertug og lék með Lyon á árunum 2006 til 2013. Hún er sjöunda leikjahæsta landsliðskona Frakklands frá upphafi en hún spilaði 156 landsleiki og skoraði 19 mörk á árunum 2000 til 2012. Undanfarin átta ár hefur hún þjálfað unglingalið Lyon en sjálf lagði hún skóna á hilluna árið 2013.

Hún tekur við starfinu af Jean-Luc Vasseur sem hefur verið gríðarlega sigursæll með liðið undanfarin ár en honum var sagt upp störfum eftir ósigurinn gegn París SG í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrr í þessum mánuði.

Sara Björk Gunnarsdóttir kom til liðs við Lyon frá Wolfsburg síðasta sumar og varð þá bæði Evrópumeistari og franskur bikarmeistari með liðinu. Hún er komin í barneignafrí og spilar ekki meira með Lyon á þessu ári.

Í tilkynningu Lyon um þjálfaraskiptin segir að nauðsynlegt hefði verið að finna leiðir til að ljúka tímabilinu á sem bestan hátt eftir mjög erfiðar kringumstæður í vetur. Bent var á að Ada Hegerberg hefði ekkert getað spilað á tímabilinu vegna meiðsla og síðan hefði Sara Björk ásamt tveimur öðrum leikmönnum misst af lykilleikjum seinni hluta tímabilsins og það hefði gert liðinu erfitt um vik í mikilvægustu leikjunum.

Auk þess að detta út úr Meistaradeildinni er Lyon stigi á eftir París SG í einvíginu um meistaratitilinn þegar fimm umferðum er ólokið. Lyon hefur orðið franskur meistari fjórtán ár í röð en nú er veldi liðsins þar alvarlega ógnað. Þá hefur liðið orðið Evrópumeistari undanfarin fimm ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert