Knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé er duglegur að spyrja þjálfara sinn um lífið í ensku úrvalsdeildinni en framherjinn ungi hefur aldrei spilað utan Frakklands.
Mbappé er talinn einn besti framherji heims en þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára hefur Frakkinn skoraði 107 deildarmörk í 146 leikjum í efstu deild í heimalandinu. Þjálfari hans hjá Frakklandsmeisturum PSG er Mauricio Pochettino sem er enska boltanum vel kunnur enda þjálfaði hann Tottenham þar um árabil og þar áður lið Southampton.
„Kylian elskar fótbolta, hann elskar að tala um fótbolta,“ sagði Pochettino í viðtali við The Guardian. „Hann spyr mikið um England, hvernig fótboltinn er spilaður þar, hvernig kúltúrinn er,“ bætti argentínski þjálfarinn við. „Hann er bara 22 ára en engu að síður mjög þroskaður og fullur sjálfstrausts.“
Mbappé hefur enn ekki framlengt samning sinn við franska stórliðið en hann er samningsbundinn félaginu til næsta árs. Hefur hann undanfarna mánuði verið orðaður við stórliðin á bæði Spáni og Englandi.