Real Madríd og Chelsea skildu jöfn, 1:1, á Spáni í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Liðin mætast aftur á Englandi í næstu viku.
Sem stendur er Chelsea í bílstjórasætinu enda fer liðið með útivallarmark í farteskinu aftur til Lundúna. Christian Pulisic kom gestunum í forystu á Alfredo Di Stefano leikvanginum í Madríd á 14. mínútu. Antonio Rudiger átti þá langa sendingu upp völlinn á Bandaríkjamanninn sem var ekki rangstæður. Hann lék svo á Thibaut Courtois í marki heimamanna og skoraði milli tveggja varnarmann á marklínunni.
Markahrókurinn Karim Benzema jafnaði metin fyrir Real á 29. mínútu með laglegu marki, tók boltann á kassann og þrumaði honum í netið í kjölfar hornspyrnu. Fleiri urðu mörkin ekki en gestirnir voru sennilega sterkari aðilinn og oft á tíðum líklegri til að næla í sigurmark.
Franska stórliðið PSG fær Manchester City í heimsókn annað kvöld í hinu undanúrslitaeinvíginu annað kvöld. Því einvígi lýkur svo í Manchester á þriðjudaginn næsta áður en Chelsea og Real mætast öðru sinni á miðvikudeginum.