Knattspyrnustjórinn Julian Nagelsmann mun taka við Evrópu- og Þýskalandsmeisturum Bayern München í sumar.
Það er Fabrizio Romano, íþróttafréttamaður á Sky Sports, sem greinir frá þessu en Nagelsmann er knattspyrnustjóri RB Leipzig í dag.
Þjálfarinn ungi er einungis 33 ára gamall en samkvæmt Sky Sports mun hann skrifa undir fimm ára samning við Bæjara.
Hans Flick er núverandi knattspyrnustjóri Bayern München en hann mun hætta með þýska liðið eftir tímabilið og reikna flestir með því að hann taki við þýska landsliðinu.
Nagelsmann er samningsbundinn Leipzig til sumarsins 2023 og Bayern þarf því að borga Leipzig 30 milljónir evra fyrir þjálfarann.
Nagelsmann hóf þjálfaraferilinn hjá Hoffenheim árið 2016 eftir að hafa þurft að leggja skóna á hilluna ungur að árum vegna meiðsla.