Evrópska knattspyrnusambandið og yfirvöld í Póllandi stefna á að selja 10.000 miða til áhorfenda á úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fram fer í Gdansk í Póllandi hinn 26. maí.
Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Gdansk-völlurinn getur tekið á móti 41.000 manns í sæti.
Ráðgert er að nýta 25% af áhorfendastæðinu fyrir stuðningsmenn en engir áhorfendur hafa verið á íþróttaviðburðum í Póllandi síðan kórónuveirufaraldurinn skall á á síðasta ári.
Ensku úrvalsdeildarfélögin Arsenal og Manchester United leika til undanúrslita í keppninni í ár en United mætir Roma á meðan Arsenal mætir Villarreal.
Fari svo að bæði lið komist í úrslitaleikinn er óvíst hvort stuðningsmenn félaganna geti ferðast til Póllands vegna kórónuveirufaraldursins, en ferðabann ríkir á Englandi þessa dagana.
Bresk stjórnvöld munu endurskoða þær takmarkanir sem eru í gangi hinn 17. maí en þá verður að teljast líklegt að það verði orðið uppselt á úrslitaleikinn.