Forráðamenn knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni vilja fá Matthijs de Ligt, varnarmann Juventus, til liðs við sig í sumar.
Það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu en de Ligt var sterklega orðaður við Barcelona áður en hann gekk til liðs við Juventus sumarið 2019.
De Ligt er einungis 21 árs gamall en hann er uppalinn hjá Ajax og lék með liðinu í undanúrslitum Meistaradeildarinnar tímabilið 2018-19 þar sem liðið féll úr leik eftir tap gegn Tottenham.
Miðvörðurinn hefur verið fastamaður í liði Juventus á tímabilinu eftir erfiða byrjun á Ítalíu en hann á að baki 69 leiki fyrir Juventus í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað fimm mörk.
Hann er samningsbundinn Juventus til sumarsins 2024 en Barcelona þarf að borga í kringum 70 milljónir punda fyrir hollenska landsliðsmanninn.