City í kjörstöðu eftir sigur í París

Riyad Mahrez fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Riyad Mahrez fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP

Manchester City gerði frábæra ferð til Parísar þar sem það vann 2:1 sigur gegn heimamönnum í París Saint-Germain í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Það voru heimamenn í PSG sem byrjuðu betur og ógnaði Neymar til að mynda marki Man City í tvígang snemma leiks, í fyrra skiptið varði Ederson slappt skot hans og í síðara skiptið náði hann betra skoti en John Stones komst í veg fyrir það að hluta og Ederson varði svo í horn.

Parísarliðið uppskar svo mark eftir stundarfjórðung. Ángel Di María tók þá frábæra hornspyrnu frá hægri á nærstöngina þar sem Marquinhos hafði slitið sig lausan og sneiddi hann boltann laglega í fjærhornið, 1:0.

PSG hélt áfram að komast í álitlegar stöður án þess þó að klára þær nægilega vel.

Leikmenn Man City tóku aðeins við sér og komst Bernardo Silva nálægt því að skora eftir rúmlega hálftíma leik en Leandro Paredes náði þá að hreinsa skalla Riyad Mahrez rétt fyrir framan mark sitt og kom þannig í veg fyrir að Silva næði til boltans í kjörstöðu.

Á 42. mínútu fékk Man City besta færi sitt í fyrri hálfleiknum þegar Silva renndi boltanum til hliðar á Phil Foden í dauðafæri en skot ungstirnisins beint á Keylor Navas í marki PSG.

Staðan því 1:0 í hálfleik, PSG í vil.

Eftir nokkuð rólega byrjun á síðari hálfleiknum jafnaði Man City metin svo að segja upp úr engu á 64. mínútu. De Bruyne gaf þá hættulega sendingu inn á vítateiginn sem sigldi einfaldlega í fjærhornið framhjá Navas, sem reyndist of seinn að átta sig á því að enginn væri að fara að snerta fyrirgjöfina.

Sjö mínútum síðar tók Man City forystuna þegar Mahrez skoraði beint úr aukaspyrnu. Einhvern veginn  fór skot hans í gegnum varnarvegginn, á milli Presnel Kimpembe og Paredes, og Navas því varnarlaus. Staðan orðin 2:1 fyrir gestina og þeir farnir að una hag sínum vel.

Skömmu síðar, á 77. mínútu, vænkaðist hagur þeirra enn frekar þegar Idrissa Gana Gueye, miðjumaður PSG, var rekinn af velli með beint rautt spjald eftir mjög ljóta tæklingu á Ilkay Gündogan.

Eftirleikurinn var því nokkuð auðveldur fyrir Man City, sem sigldi að lokum frábærum útisigri í höfn.

Staðan hjá Man City er því ansi góð fyrir síðari leik liðanna í Manchester næstkomandi þriðjudag, enda með samanlagða forystu og búnir að skora tvö útivallarmörk.

Leikmenn Manchester City fagna eftir að Kevin De Bruyne jafnaði …
Leikmenn Manchester City fagna eftir að Kevin De Bruyne jafnaði metin. AFP
Marquinhos fagnar marki sínu í kvöld.
Marquinhos fagnar marki sínu í kvöld. AFP
PSG 1:2 Man. City opna loka
95. mín. Leik lokið Man City vinnur frábæran útisgur gegn PSG í fyrri leik undanúrslita Meistaradeildar Evrópu!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert