Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, svaf illa í nótt fyrir leik liðsins gegn París SG í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Parc des Princes í París í Frakklandi sem fram fer í kvöld.
Þetta er fyrri leikur liðanna í undanúrslitum keppninnar en þetta er í fyrsta sinn, síðan Guardiola tók við City sumarið 2016, sem hann kemur liðinu í undanúrslit Meistaradeildarinnar.
Spænski stjórinn hefur áhyggjur af Kylian Mbappé og Neymar, sóknarmönnum PSG, og segir að þeir hafi truflað svefninn hans í nótt.
„Ég treysti leikmönnum mínum fullkomlega til þess að láta verkin tala inni á vellinum,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi.
„Við erum ekki með neina sérstaka taktík til þess að stöðva sóknarmenn PSG, þeir eru einfaldlega of góðir.
Ég ætlaði mér að ná góðum nætursvefni í nótt en það gekk illa. Ég hafði áhyggjur af Neymar og Mbappé en mér gekk betur að sofna þegar ég hætti að hugsa um þá tvo.
Þeir eru ótrúlegir knattspyrnumenn og á meðal þeirra bestu í heiminum í dag. Vonandi getum við gefið þeim alvöruleik,“ bætti Guardiola við.