Manchester United fór á kostum þegar það tók á móti Roma í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Eftir að hafa verið 1:2 undir í hálfleik skoraði liðið fimm mörk í þeim síðari og vann þar með 6:2 stórsigur.
Man Utd tók forystuna snemma leiks. Paul Pogba fór þá illa með varnarmenn Roma, kom boltanum á Edinson Cavani sem fann Bruno Fernandes einan í vítateignum og hann kláraði með laglegri vippu yfir Pau López í marki Roma, sem endaði í bláhorninu.
Eftir stundarfjórðungs leik fékk Roma vítaspyrnu þegar Rick Karsdorp tæklaði boltann fyrir og þaðan fór í handlegginn á Pogba. Lorenzo Pellegrini steig á vítapunktinn og skoraði af öryggi þó David De Gea hafi farið í rétt horn.
Á 34. mínútu tóku gestirnir í Roma svo forystuna. Henrikh Mkhitaryan fann þá Pellegrini einan í teignum, sem Luke Shaw spilaði réttstæðan, Pellegrini gaf þvert fyrir markið þar sem Edin Dzeko kom boltanum yfir marklínuna af örstuttu færi, 1:2.
Cavani fékk kjörið tækifæri til þess að jafna metin fyrir Man Utd í uppbótartíma en Antonio Mirante, sem kom inn á fyrir hinn meidda Pau López, varði frá honum. Cavani fékk hins vegar boltann aftur en Chris Smalling komst þá í veg fyrir skot hans.
Staðan því 1:2 í hálfleik.
Cavani var þó ekki lengi að bæta upp fyrir það að klúðra færunum tveimur undir lok fyrri hálfleiksins því hann var búinn að jafna metin á 48. mínútu. Rómverjar voru þá fáliðaðir til baka, Pogba fann Fernandes í góðri stöðu, sem fann Cavani í enn betri stöðu og hann kláraði glæsilega upp í samskeytin, 2:2.
Cavani var svo aftur á ferðinni á 64. mínútu. Fernandes fann þá Aaron Wan-Bissaka hægra megin í teignum, þar sem hann var aleinn, Wan-Bissaka skaut að marki, Mirante varði en hélt ekki boltanum og Cavani þakkaði fyrir sig og kom boltanum yfir línuna af stuttu færi, 3:2.
Sjö mínútum síðar fékk Man Utd vítaspyrnu þegar Chris Smalling braut á Cavani. Fernandes steig á vítapunktinn og skoraði af gífurlegu öryggi, 4:2.
Man Utd voru þó hvergi nærri hættir. Á 75. mínútu átti Fernandes stórglæsilega fyrirgjöf á Pogba sem skoraði með laglegum skalla, 5:2.
Varamaðurinn Mason Greenwood negldi svo síðasta naglann í kistu Rómverja fjórum mínútum fyrir leikslok. Þá átti Cavani frábæra sendingu inn fyrir á Greenwood sem náði skotinu með hægri fæti og Mirante varði með löppinni og í netið, 6:2.
Það urðu lokatölur og Man Utd fer því með vægast sagt gott veganesti í síðari leik liðanna í Róm eftir slétta viku.
Arsenal tapaði naumlega, 2:1, gegn Villarreal á Spáni í hinum leiknum í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Ekki blés byrlega fyrir Arsenal eftir að hafa lent tveimur mörkum undir og svo misst mann af velli með rautt spjald en liðið náði svo að skora mikilvægt útivallarmark.
Villarreal tók forystuna á 5. mínútu með sinni fyrstu marktilraun. Samuel Chukwueze fór þá vel með boltann hægra megin í teignum, kom honum til Trigueros sem kom aðvífandi og þrumaði boltanum niður í fjærhornið.
Eftir tæplega hálftíma leik tvöfaldaði Villarreal forystu sína. Dani Parejo tók þá hornspyrnu frá vinstri, gaf á nærstöngina þar sem Gerard Moreno vann skallann og fleytti honum á fjærstöngina á Raúl Albiol sem skoraði með skoti á lofti af örstuttu færi.
Staðan því 2:0 í hálfleik.
Á 57. mínútu fékk Dani Ceballos, miðjumaður Arsenal, sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Þrátt fyrir það minnkaði Arsenal muninn á 73. mínútu úr vítaspyrnu eftir að Trigueros hafði brotið á Bukayo Saka. Nicolas Pépé steig á vítapunktinn og skoraði með því að skjóta á mitt markið.
Sjö mínútum síðar fékk Étienne Capoue, miðjumaður Villarreal, sitt annað gula spjald og þar með rautt og því var jafnt í liðum það sem eftir lifði leiks.
Ekki var meira skorað í leiknum og lokatölur því 2:1. Þar með er allt opið í einvíginu fyrir síðari leik liðanna á Emirates-vellinum í Lundúnum eftir viku.