Íslandsvinurinn hetja Íslendingaliðsins

Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfar Esbjerg.
Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfar Esbjerg. Ljósmynd/Esbjerg

Esbjerg, undir stjórn Ólafs H. Kristjánssonar, er enn með í baráttunni um sæti í dönsku úrvalsdeildinni eftir nauman sigur á HB Köge í kvöld, 1:0.

Það var finnski landsliðsmaðurinn Pyry Soiri sem skoraði sigurmark Esbjerg á 56. mínútu en margir Íslendingar minnast hans með hlýhug eftir að mark hans fyrir Finna gegn Króötum haustið 2017 átti stóran þátt í að tryggja Íslandi sigur í sínum undanriðli HM 2018.

Kjartan Henry Finnbogason lék fyrstu 78 mínúturnar í framlínu Esbjerg en Andri Rúnar Bjarnason var ekki með liðinu í kvöld.

Viborg er með 63 stig, Silkeborg 59 og Esbjerg 55 en þessi þrjú lið berjast um tvö sæti í úrvalsdeildinni. Hin tvö liðin eiga eftir að leika í umferðinni en að henni lokinni verður fimm umferðum ólokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert