Lionel Messi, fyrirliði knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni, verður áfram í herbúðum liðsins á næstu leiktíð en það er Richard Martin, blaðamaður hjá Reuters, sem greinir frá þessu.
Argentínski landsliðsfyrirliðinn hefur verið sterklega orðaður við brottför frá Barcelona undanfarna mánuði en hann reyndi að komast burt frá félaginu síðasta sumar eftir ósætti við Josep Maria Baromeu, þáverandi forseta félagsins.
Bartomeu lét af störfum hjá félaginu fyrr á þessu ári og Joan Laporta tók við forsetaembættinu á nýjan leik en hann og Messi eru góðir vinir.
Jorge Messi, faðir Messi, hefur átt í viðræðum við forrámanenn spænska félagsins undanfarna daga um framlengingu á samningi Messi en núverandi samningur hans rennur út í sumar.
Þær viðræður hafa gengið mjög vel að sögn Reuters og er leikmaðurinn nú staðráðinn í að vera áfram á Spáni.
Messi, sem er 33 ára gamall, hefur leikið með Barcelona allan sinn feril en hann hefur skorað 667 mörk fyrir félagið í 773 leikjum.