Barcelona nýtti ekki tækifæri sem liðið fékk í kvöld til að komast á topp spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu og tapaði óvænt fyrir Granada á Camp Nou, 1:2.
Barcelona er áfram í þriðja sæti með 71 stig en Atlético Madrid er með 73 stig og Real Madrid 71 í tveimur efstu sætunum. Liðin eiga nú öll fimm leiki eftir.
Lionel Messi kom Barcelona yfir um miðjan fyrri hálfleik eftir sendingu frá Antoine Griezmann. Darwin Machis og Jorge Molina skoruðu fyrir Granada í seinni hálfleik og tryggðu liðinu sigur. Granada er í áttunda sæti deildarinnar.