Sverrir Ingi Ingason landsliðsmaður í knattspyrnu er kominn með liði sínu PAOK frá Þessaloniku í úrslitaleik grísku bikarkeppninnar eftir sigur, 2:1, í seinni undanúrslitaleiknum gegn AEK frá Aþenu í dag.
PAOK vann fyrri leikinn í Aþenu 1:0 en AEK náði að svara fyrir það með því að komst yfir á 70. mínútu með marki frá Konstantinos Galanopoulos. Staðan var þá jöfn samanlagt en Michael Krmencik skoraði fyrir PAOK á 85. mínútu, 1:1, og samanlagt 2:1.
Í lok uppbótartímans skoraði svo Andrija Zivkovic sigurmark PAOK, 2:1, og Sverrir og félagar unnu einvígið þar með 3:1 samanlagt. Sverrir Ingi lék allan leikinn í vörn PAOK.
Í úrslitaleiknum leikur PAOK við Olympiacos, lið Ögmundar Kristinssonar markvarðar, sem er fyrir nokkru búið að tryggja sér gríska meistaratitilinn með miklum yfirburðum.