Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Ajax, er búinn að framlengja samning sinn við félagið og rennur hann út um sumarið 2023. Ten Hag var ofarlega á lista Tottenham Hotspur, sem leitar að næsta knattspyrnustjóra sínum.
José Mourinho var rekinn frá Tottenham í mánuðinum eftir slappt gengi á tímabilinu og tilraunir til þess að semja við Julian Nagelsmann, sem samdi á dögunum um að taka við Bayern München í sumar, og Brendan Rodgers, knattspyrnustjóra Leicester City, hafa ekki borið árangur.
Ten Hag bætist þar með á lista yfir knattspyrnustjóra sem Tottenham auðnast ekki að semja við.
Samkvæmt The Guardian munu forsvarsmenn Tottenham næst snúa sér að Graham Potter, knattspyrnustjóra Brighton & Hove Albion, eða Scott Parker, knattspyrnustjóra Fulham.