Grótta staðfestir vistaskipti Hákons Rafns

Hákon Rafn Valdimarsson mun reyna fyrir sér í sænsku úrvalsdeildinni …
Hákon Rafn Valdimarsson mun reyna fyrir sér í sænsku úrvalsdeildinni í sumar. Eggert Jóhannesson

Knattspyrnudeild Gróttu hefur staðfest að markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson muni ganga í raðir sænska úrvalsdeildarfélagsins Elfsborg í sumar.

Fyrir þremur vikum greindi mbl.is frá því að Hákon Rafn væri á leiðinni til Elfsborg, sem lenti í 2. sæti í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

„Knattspyrnudeild Gróttu hefur náð samkomulagi við IF Elfsborg um að Hákon Rafn Valdimarsson markvörður gangi til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið í félagaskiptaglugganum í sumar, að uppfylltum nánari skilmálum samningsins,“ segir meðal annars í tilkynningu knattspyrnudeildar Gróttu.

Hákon Rafn er aðeins 19 ára gamall en hefur þrátt fyrir það verið aðalmarkvörður Gróttu undanfarin þrjú tímabil, þar sem hann hefur leikið 55 deildarleiki í Pepsi Max-deildinni, Inkasso-deildinni (nú Lengjudeildinni) og 2. deildinni.

Hann á auk þess tvo landsleiki að baki fyrir yngri landslið Íslands og var í lokahóp U21-árs landsliðsins sem tók þátt á lokamóti EM í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert