Barcelona í viðræðum við PSG

Neymar gekk til liðs við PSG frá Barcelona sumarið 2017 …
Neymar gekk til liðs við PSG frá Barcelona sumarið 2017 fyrir tæplega 200 milljónir punda. AFP

Forráðamenn spænska knattspyrnufélagsins Barcelona hafa sett sig í samband við forráðamenn Frakklandsmeistara PSG vegna hugsanlegra kaupa á sóknarmanninum Neymar.

Það er RAC1 á Spáni sem greinir frá þessu en Neymar hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til spænska félagsins undanfarin ár en hann greindi sjálfur frá því á dögunum að hann væri ánægður í Frakklandi.

Brasilíski sóknarmaðurinn, sem er 29 ára gamall, verður samningslaus sumarið 2022 og PSG gæti því þurft að selja hann í sumar ef hann neitar að skrifa undir nýjan samning í Frakklandi.

Lionel Messi, fyrirliði Barcelona, vill sjá félagið reyna við Neymar í sumar en þeir léku saman hjá félaginu frá 2013 til 2017 áður en Neymar gekk til liðs við PSG fyrir tæplega 200 milljónir punda.

Neymar lék 186 leiki fyrir Barcelona þar sem hann skoraði 105 mörk og lagði upp önnur 76 en talið er að Barcelona þurfi að borga í kringum 90 milljónir punda fyrir leikmanninn í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert