Borussia Dortmund lenti ekki í miklum vandræðum með B-deildarlið Holstein Kiel þegar liðin mættust í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í kvöld. Fimm mörk Dortmund í fyrri hálfleik gerðu skjótt og örugglega út um leikinn.
Bandaríski vængmaðurinn Giovanni Reyna skoraði fyrstu tvö mörk leiksins, á 16. og 23. mínútu, og Marco Reus skoraði það þriðja á 26. mínútu.
Thorgan Hazard vildi vera með í teitinu og skoraði á 32. mínútu og 10 mínútum síðar rak Jude Bellingham smiðshöggið með fimmta markinu.
Þar með var staðan 5:0 í hálfleik, sem reyndust sömuleiðis lokatölur.
Dortmund mætir því RB Leipzig í úrslitum þýsku bikarkeppninnar þann 13. maí næstkomandi.
Erling Braut Haaland var ekki í leikmannahópi Dortmund í kvöld.