Rúnar Már Sigurjónsson er í liði umferðarinnar í rúmensku 1. deildinni í knattspyrnu eftir frammistöðu sína með CFR Clij gegn Botosani í úrslitakeppninni um rúmenska meistaratitilinn á miðvikudaginn síðasta.
Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði bæði mörk CFR í 2:0-sigri liðsins en hann gekk til liðs við félagið í janúarglugganum frá Astana í Kasakstan.
Rúnar hefur farið vel af stað með liðinu en hann hefur skorað þrjú mörk í þremur leikjum fyrir félagið í deildarkeppninni.
„Rúnar skoraði annan leikinn í röð og sýndi mjög góða og heilsteypta frammistöðu,“ segir í umsögn um Rúnar á heimasíðu deildarinnar.
„Hann er að gera sig gildandi í liði CFR Cluj og er strax orðinn einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins,“ segir enn fremur á heimasíðunni.