Lionel Messi, fyrirliði knattspyrnufélags Barcelona á Spáni, er tilbúinn að taka á sig launalækkun í sumar en það er Eurosport sem greinir frá þessu.
Messi verður samningslaus í sumar en hann er í viðræðum við forráðamenn félagsins um nýjan samning á Spáni.
Ef Messi tekur á sig launalækkun skapast meira svigrúm fyrir félagið til þess að fá inn nýja leikmenn og eins að greiða niður skuldir en Börsungar eru í miklum fjárhagsvandræðum.
Norski framherjinn Erling Braut Haaland hefur verið orðaður við Barcelona að undanförnu en Eurosport greinir frá því að félagið hafi efni á Haaland ef Messi samþykkir launalækkunina.
Messi, sem er 33 ára gamall, er uppalinn hjá Barcelona og hefur leikið með félaginu allan sinn feril en hann á að baki 773 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 667 mörk.