Chelsea mun mæta Barcelona í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna eftir að hafa unnið 4:1 sigur gegn Bayern München í síðari leik liðanna í undanúrslitum keppninnar í dag. Chelsea er þar með komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrsta skipti í sögu kvennaliðsins.
Fyrri leikurinn í München hafði farið 2:1 fyrir Bayern og lengi vel stefndi í framlengingu þegar staðan var einmitt 2:1, Chelsea í vil, þegar langt var liðið á leik dagsins.
Á 84. mínútu kom hins vegar þriðja markið mikilvæga þegar danska sóknarkonan Pernille Harder skoraði og kom Chelsea þar með í forystu í einvíginu.
Á fimmtu mínútu uppbótartíma skoraði enska sóknarkonan Fran Kirby sitt annað mark og fjórða mark Chelsea og tryggði liðinu þar með öruggan 4:1 sigur og 5:3 sigur samanlagt í einvíginu.
Fyrr í dag tryggði Barcelona sér farseðilinn í úrslitaleikinn með því að slá París Saint-Germain út samanlagt 3:2.
Chelsea og Barcelona mætast því í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Gamla Ullevi-leikvanginum í Gautaborg í Svíþjóð, þar sem bæði liðin freista þess að vinna sinn fyrsta Meistaradeildarbikar í sögunni.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sat allan tímann á varamannabekk Bayern München í leiknum í dag.