Sergio Ramos, fyrirliði Spánarmeistara Real Madríd, er byrjaður að æfa að nýju og verður því leikfær fyrir síðari leik liðsins gegn Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Ramos hefur verið fjarri góðu gamni og misst af síðustu níu leikjum Real í öllum keppnum, fyrst vegna meiðsla og svo smitaðist hann af kórónuveirunni.
Hann hóf æfingar með liðinu á ný á föstudaginn og ætti því að geta tekið þátt í leiknum mikilvæga gegn Chelsea. 2:0 sigur Real gegn Osasuna í spænsku 1. deildinni í gær kom þó of snemma fyrir hann.
Fyrri leik Real og Chelsea lauk með 1:1 jafntefli í Madríd vikunni og er því von á hörkuleik á Stamford Bridge í Lundúnum næstkomandi miðvikudag.