Varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson var á skotskónum þegar lið hans Brøndby tapaði 2:4 á útivelli gegn Randers í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Hjörtur skoraði fyrsta mark leiksins og kom þannig Brøndby í forystu á 16. mínútu.
Eftir það seig á ógæfuhliðina og jafnaði Randers eftir tæplega háltíma leik og skoraði svo tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks, staðan því orðin 1:3.
Simon Hedlund minnkaði muninn fyrir Brøndby á 73. mínútu en Tobias Klysner Breuner gerði endanlega út um leikinn á 87. mínútu þegar hann skoraði fjórða mark Randers.
Brøndby fór þar með afar illa að ráði sínu en liðið á í harðri baráttu við Midtjylland um danska meistaratitilinn.
Leikur Midtjylland gegn Nordsjælland var að hefjast og með sigri getur Midtjylland aukið forskot sitt á toppnum í fjögur stig.
Mikael Anderson byrjar á varamannabekk Midtjylland í dag.