Ótrúleg tölfræði Patriks

Patrik Sigurður Gunnarsson hefur lokað fyrir markið í liði Silkeborg …
Patrik Sigurður Gunnarsson hefur lokað fyrir markið í liði Silkeborg á árinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Patrik Sigurður Gunnarsson hefur ekki mikið verið að fá á sig mörk frá því hann gekk til liðs við Silkeborg í dönsku B-deildinni í byrjun árs. Í dag vannst enn einn sigurinn með Patrik milli stanganna og enn á ný hélt hann markinu sínu hreinu.

Silkeborg vann að þessu sinni 1:0 útisigur gegn Fredericia þar sem leikmaður Fredericia varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir tæplega hálftíma leik.

Samherji Patriks, Stefán Teitur Þórðarson, varð fyrir því óláni að meiðast í leiknum og fór hann því af velli eftir 33 mínútna leik.

Um Íslendingaslag var að ræða þar sem Elías Rafn Ólafsson lék allan leikinn í marki Fredericia.

Patrik hefur nú spilað 11 leiki fyrir Silkeborg, unnið 10 þeirra, haldið markinu hreinu í 9 þeirra og aðeins fengið á sig tvö mörk.

Í eina leiknum sem ekki vannst gerði liðið 1:1 jafntefli gegn Íslendingaliði Esbjerg og hitt markið sem hann hefur fengið á sig skoraði Esbjerg líka, þegar Silkeborg vann 2:1 sigur.

Silkeborg stendur vel að vígi í öðru sæti dönsku B-deildarinnar, sem gefur sæti í dönsku úrvalsdeildinni, og er nú sjö stigum á undan Esbjerg í þriðja sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert