Knattspyrnukonan Sveindís Jane Jónsdóttir verðir frá næstu sex vikurnar vegna meiðsla í hné en faðir hennar Jón Sveinsson greindi frá þessu á facebook-síðu sinni í dag.
Sóknarkonan var borin af velli í leik Kristianstad og Växjö í sænsku úrvalsdeildinni um helgina en leiknum lauk með 1:0-sigri Kristianstad í Växjö.
Sveindís festi takkana í grasinu á 38. mínútu með þeim afleiðingum að það snerist upp á hné hennar og var í fyrstu óttast að hún væri með slitið krossband sem hefði þýtt níu mánaða fjarvera hið minnsta.
Landsliðskonan, sem er 19 ára gömul, mun missa af næstu leikjum Kristianstad en vonir standa til þess að hún verði klár í slaginn á nýjan leik með sænska liðinu um miðjan júní.
Sveindís, sem er í eigu Wolfsburg og á láni hjá Kristianstad í sumar, hefur byrjað tímabilið með miklum látum í Svíþjóð og skorað tvö mörk í fyrstu þremur leikjum sínum, ásamt því að leggja upp eitt mark fyrir liðsfélaga sína.