Tveir af bestu knattspyrnustjórum í sögu ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu munu etja kappi að nýju á næsta tímabili.
Þeir Antonio Conte, stjóri nýkrýndra Ítalíumeistara Internazionale, og José Mourinho, sem mun taka við Roma í sumar, hafa eldað grátt silfur saman í gegnum tíðina, sérstaklega þegar Conte var stjóri Chelsea og Mourinho stjóri Manchester United.
Frá því byrjað var að gefa þrjú stig fyrir sigur í ítölsku A-deildinni frá og með tímabilinu 1994/1995, hafa engir tveir knattspyrnustjórar unnið sér inn jafn mörg stig að meðaltali og Conte og Mourinho.
Conte er með 2,26 stig að meðaltali í 199 leikjum og Mourinho er með 2,18 stig að meðaltali í 76 leikjum.
Auk þess að vinna ítölsku A-deildina með Inter í ár vann Conte deildina einnig þrjú ár í röð sem stjóri Juventus, frá 2012 til 2014, og Mourinho vann deildina bæði tímabilin sín sem stjóri Inter, árin 2009 og 2010.
Það verður því fróðlegt að fylgjast með því þegar hinir tveir blóðheitu stjórar mætast að nýju á næsta tímabili.