Í leikmannahóp stórveldisins í fyrsta sinn

Hákon Arnar Haraldsson þegar hann samdi við FC Kaupmannahöfn.
Hákon Arnar Haraldsson þegar hann samdi við FC Kaupmannahöfn. Ljósmynd/FCK

Hákon Arnar Haraldsson, 18 ára vængmaður danska stórveldisins FC Kaupmannahafnar, var í leikmannahóp liðsins í fyrsta sinn þegar liðið vann 3:2-sigur gegn AGF í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Hákon Arnar gekk til liðs við FC Kaupmannahöfn í ágúst síðastliðinum og hefur vakið athygli fyrir góða frammistöðu með yngri liðunum, auk þess sem hann lét að sér kveða í æfingaleikjum með aðalliðinu í byrjun ársins, þar sem hann skoraði til að mynda gegn AGF einmitt.

Skagamaðurinn ungi var allan tímann á varamannabekknum í leiknum í gærkvöldi.

Þótt Hákon Arnar hafi ekki fengið sitt fyrsta formlega tækifæri í leik gærkvöldsins er hann farinn að banka duglega á dyr aðalliðsins og verður fróðlegt að sjá hvort hann spilar sinn fyrsta aðalliðsleik í þeim fjórum leikjum sem eftir eru af dönsku úrvalsdeildinni.

Hákon Arnar á ekki langt að sækja hæfileika sína í knattspyrnu. Foreldrar hans eru Haraldur Ingólfsson, margfaldur Íslandsmeistari með ÍA og fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður, og Jónína Víglundsdóttir, fyrrverandi landsliðskona og leikmaður ÍA. Eldri bróðir hans er svo Tryggvi Hrafn, sem leikur nú með Val og á einnig A-landsleiki og atvinnumannsferil að baki.

Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF í leiknum í gær og lék fyrstu 87 mínúturnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka