José Mourinho mun taka við stjórnartaumunum hjá ítalska knattspyrnufélaginu Roma í sumar.
Fyrir rúmum tveimur vikum var Mourinho rekinn sem knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur eftir slakan árangur í ensku úrvalsdeildinni og Portúgalinn sigursæli var því ekki lengi að finna sér nýtt starf.
Mourinho snýr nú aftur til Ítalíu, en hann náði stórkostlegum árangri með Internazionale frá Mílanó á árunum 2008-2010, þar sem sögufræg þrenna leit dagsins ljós árið 2010.
Að svo stöddu hefur ekki verið greint frá því hversu langan samning Mourinho gerir við Roma, sem er sem stendur í 7. sæti ítölsku A-deildarinnar og í undanúrslitum Evrópudeildarinnar, þó útlitið sé svart þar eftir 2:6 tap gegn Manchester United í fyrri leik liðanna síðastliðinn fimmtudag.
Paulo Fonseca er núverandi knattspyrnustjóri Roma og lætur af störfum þegar samningur hans rennur út að loknu yfirstandandi tímabili.