Javi Martínez, varnar- og miðjumaður Bayern München, mun yfirgefa félagið að loknu yfirstandandi tímabili þegar samningur hans rennur út.
Martínez, sem hefur unnið hér um bil alla titla sem knattspyrnumaður í fremstu röð getur unnið á ferlinum, mun að öllum líkindum ljúka tíma sínum hjá Bayern á jákvæðum nótum.
Á þeim níu tímabilum sem hann hefur spilað með Bæjurum hefur hann unnið þýsku 1. deildina átta sinnum, og allar líkur eru á því að sá níundi á níu árum bætist við þar sem Bayern er með sjö stiga forystu á toppi deildarinnar þegar þremur umferðum er ólokið.
Sem dæmi um sigursæld Martínez, sem er 32 ára gamall, hefur hann orðið heims- og Evrópumeistari með Spáni, unnið Meistaradeild Evrópu með Bayern tvisvar og sömuleiðis orðið heimsmeistari félagsliða með Bayern tvisvar.