Pep Guardiola er mér mjög minnisstæður. „Í mikilvægum leikjum vel ég einfaldlega ellefu bestu leikmennina,“ sagði hann gjarnan.
Taktu nú vel eftir því í þessu felst hvað knattspyrnan snýst um: Hæfni einstaklingsins. Guardiola er topp þjálfari. Hann elskar að uppgötva hæfileika og getu leikmanna.
Margir þjálfarar vilja gjarnan fækka flækjustigum í knattspyrnunni. Guardiola sækist á hinn bóginn eftir því að ná tökum á þeim. Líkja mætti aðferðum hans við stórmeistara í skák eða hljómsveitarstjóra sem nær því besta út úr hverjum hljóðfæraleikara. Helsti munurinn er sá að í knattspyrnunni er ekki hægt að spila eftir nótum og fleiri breytur hafa áhrif á knattspyrnumanninn heldur en hrók og riddara á taflborðinu. Það er alls ekki auðvelt að koma auga á hvað leikmaður getur eða getur ekki framkvæmt á vellinum. Ekki er heldur auðvelt að lýsa því með orðum.
Framúrskarandi þjálfari er fljótur að átta sig á hvað menn hafa fram að færa og hver verður lykilleikmaður. Í framhaldinu kemur þjálfarinn því á framfæri við hvern og einn í hverju styrkleikar og veikleikar leikmannsins felast sem og liðsfélaganna. Á hverjum einasta degi er varpað skýrara ljósi á hlutverk leikmannsins. Þessa vinnu innir Guardiola af hendi af meiri ástríðu en ég hef séð hjá öðrum. Því lýkur með því að allir átta sig á að þjálfarinn hefur rétt fyrir sér, meira að segja þeir sem ekki fengu að spila. Þessi niðurstaða færir honum óskorað vald.
Grein Philipps Lahm í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.
Philipp Lahm var fyrirliði þýska landsliðsins í knattspyrnu þegar það varð heimsmeistari árið 2014 og lék með Bayern München í fimmtán ár. Hann er mótsstjóri Evrópumóts karla sem fram fer árið 2024. Pistlar hans um knattspyrnu, „Mitt sjónarhorn“ munu birtast reglulega í Morgunblaðinu. Þeir eru skrifaðir í samvinnu við Oliver Fritsch, íþróttaritstjóra þýska netmiðilsins Zeit Online, og birtast í fjölmiðlum nokkurra Evrópulanda. Fyrsti pistill hans fjallar um Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, en Lahm lék undir hans stjórn hjá Bayern á árunum 2013 til 2016.