Sænska knattspyrnusambandið hefur formlega farið fram á við heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð að 500 áhorfendum verði leyft að sækja úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu kvenna í knattspyrnu.
Barcelona og Chelsea munu eigast við í leiknum en hann mun fara fram á Gamla Ullevi í Gautaborg. Leikvangi sem tekur liðlega 19 þúsund manns í sæti.
Leikurinn fer fram 16. maí og samkvæmt sóttvarnarreglum í Svíþjóð verður átta manns leyft að sækja leikinn.
Nú vill svo til að daginn eftir stendur til að breyta þeim viðmiðum og verður þá 500 manns leyft að sækja íþróttaleiki sem flokkast undir stóra viðburði.