Elías Már Ómarsson var á skotskónum fyrir Excelsior þegar liðið heimsótti Jong AZ Alkmaar í hollensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.
Leiknum lauk með 2:1-sigri Jong AZ Alkmaar en Elías, sem lék allan leikinn í fremstu víglínu hjá Excelsior, kom Excelsior yfir strax á 7. mínútu.
Keflvíkingurinn hefur verið iðinn við kolann í Hollandi á tímabilinu en þetta var mark númer 22 hjá honum í B-deildinni en alls hefur hann skorað 26 mörk í öllum keppnum fyrir Excelsior á leiktíðinni.
Excelsior hefur að litlu að keppa í deildinni en liðið er með 48 stig í níunda sæti deildarinnar, 9 stigum frá sæti í umspili um laust sæti í úrvalsdeildinni þegar einni umferð er ólokið.