Derby bjargaði sér á ævintýralegan hátt

Wayne Rooney hafði ástæðu til þess að brosa í dag.
Wayne Rooney hafði ástæðu til þess að brosa í dag. AFP

Það var hádramatík í botnbaráttunni þegar lokaumferð ensku B-deildarinnar fór fram í dag. Derby County, sem Wayne Rooney þjálfar, bjargaði sér á ævintýralegan hátt.

Fyrir leik var Derby í 21. sæti, sætinu fyrir ofan fallsætin þrjú. Lengi vel var útlit fyrir að Derby myndi falla niður í C-deild.

Derby mætti Sheffield Wednesday í sannkölluðum botnslag, þar sem gestirnir frá Sheffield áttu ennþá smá von um að halda sér í deildinni með sigri.

Sheffield tók forystuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks, áður Derby sneri taflinu við tveimur mörkum snemma í þeim síðari. Staðan orðin 2:1.

Sheffield Wednesday sneri taflinu þó sér í vil að nýju og komst þar með í 2:3. Martyn Waghorn jafnaði svo metin í 3:3 á 78. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Á þeim tímapunkti voru bæði lið á leiðinni niður þar sem Rotherham United var 0:1 yfir á útivelli gegn Cardiff City. Marlon Pack jafnaði hins vegar metin fyrir Cardiff á 88. mínútu, 1:1, og sendi þar með Rotherham niður í C-deildina.

Á meðan háðu Derby og Sheffield Wednesday ótrúlega baráttu það sem eftir var af leiknum, þar sem jafntefli nægði skyndilega Derby og Sheffield gat skotið sér úr botnsætinu og upp í það 21. með því að skora sigurmark í leik dagsins.

Það kom þó ekki og Derby heldur sæti sínu á meðan Wycombe Wanderers, Rotherham og Sheffield Wednesday þurfa að láta sér það lynda að spila í C-deildinni á næsta tímabili. Derby fékk 44 stig, Wycombe 43, Rotherham 42 og Sheffield Wednesday 41 stig.

Þegar liggur fyrir að Hull og Peterborough koma upp í B-deildina. Blackpool, lið Daníels Leó Grétarssonar, Sunderland og Lincoln eru örugg í umspil og fjórða liðið verður Portsmouth, Oxford eða Charlton.

Ljóst hvaða lið mætast í umspilinu

Eftir lokaumferðina í B-deildinni í dag er endanlega ljóst hvaða lið mætast í umspili um að komast upp í ensku úrvalsdeildina.

Þar sem Bournemouth tapaði 0:2 gegn Stoke City og Barnsley gerði 2:2-jafntefli við Norwich City fer Barnsley upp úr 6. sæti í 5. sæti.

Því munu Brentford og Bournemouth mætast annars vegar og svo Swansea City og Barnsley. Sigurliðin í þessum einvígjum leika til úrslita á Wembley um úrvalsdeildarsætið.

Norwich eru meistarar og Watford fylgir liðinu upp í ensku úrvalsdeildina með því að enda í öðru sæti.

Jón Daði Böðvarsson og félagar í Millwall höfnuðu í 11. sæti af 24 liðum en þeir steinlágu 6:1 fyrir Coventry í lokaumferðinni í dag. Jón Daði var varamaður og kom ekki við sögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert