Real Madríd, Barcelona og Juventus hafa í sameiningu gefið út yfirlýsingu vegna hinnar svokölluðu „ofurdeildar.“ Þar segir að félögin séu hvergi nærri af baki dottin í áformum sínum um stofnun deildarinnar og að þrýstingur og hótanir af hendi ýmissa þriðju aðila sé ótækt.
„Stofnendafélögin hafa orðið fyrir, og halda áfram að verða fyrir, óásættanlegum þrýstingi, hótunum og brotum af hálfu þriðju aðila um að segja sig frá áformunum og þar með gefa upp rétt sitt sinn og skyldu til þess að færa fram lausnir fyrir vistkerfi knattspyrnunnar með raunhæfum tillögum og uppbyggjandi samræðum.
Þetta er ótækt samkvæmt lögum og reglum og dómstólar hafa þegar dæmt tillögum og ofurdeild í hag og fyrirskipað þeim, annaðhvort með beinum hætti eða í gegnum tengda aðila, að hætta öllum aðgerðum sem væru til þess fallnar að koma í veg fyrir þessi áform á meðan meðferð dómsmála stendur yfir,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni, sem má lesa í heild sinni hér.
Yfirlýsingin frá félögunum þremur kemur í kjölfar yfirlýsingar UEFA í gær, þar sem greint var frá refsingum liðanna sem drógu sig í hlé í kjölfar gífurlegs bakslags vegna áformanna um deildina.
Í yfirlýsingu UEFA eru félögin þrjú harðlega gagnrýnd fyrir að gefa sig ekki og segja sig frá áformunum. Mega þau eiga von á harðari refsingu en hin níu félögin hafa fengið og munu fá, vegna þeirrar ákvörðunar að þráast við.