Aðeins munar einu stigi á Midtjylland og Bröndby í efstu sætum danska úrslitariðilsins í knattspyrnu eftir leik liðanna í dag sem lauk með 3:1-sigri Bröndby í Bröndby.
Alexander Scholz kom Midtjylland yfir á 32. mínútu en Mikael Uhre jafnaði metin fyrir Bröndby fimm mínútum síðar.
Simon Hedlung kom Bröndby yfir, 2:1, á 70. mínútu áður en Andrija Pavlovic innsiglaði sigur Bröndby á 83. mínútu.
Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Bröndby en Mikael Anderson kom inn á sem varamaður hjá Midtjylland á 75. mínútu.
Bröndby er með 55 stig í öðru sæti riðilsins en Midtjylland er í efsta sætinu með 56 stig.
Þrjár umferðir eru eftir af úrslitariðlinum en Midtjylland mætir Randers, FCK og AGF í lokaleikjum sínum. Á sama tíma mætir Bröndby liði FCK, AGF og Nordsjælland.