Það er óhætt að segja að franski vængmaðurinn Kingsley Coman sé sigursæll. Í gær vann hann sjötta deildarmeistaratitil sinn í röð með Bayern München og hefur hann nú orðið deildarmeistari öll tímabil sín í meistaraflokki.
Coman, sem er 24 ára gamall, hóf ferilinn í Frakklandi þar sem hann spilaði örfáa leiki fyrir París Saint-Germain tímabilin 2012/2013 og 2013/2014. Bæði tímabilin vann PSG frönsku deildina.
Því næst lá leiðin til Juventus, þar sem hann varð Ítalíumeistari tímabilið 2014/2015. Hann hélt svo til München þar sem hann hefur sem áður segir unnið sex deildarmeistaratitla í röð.
Níu deildarmeistaratitlar á níu tímabilum er því uppskeran hjá Coman, sem hefur auk þess unnið Meistaradeild Evrópu með Bayern, þar sem hann skoraði sigurmarkið í 1:0 sigri gegn uppeldisfélagi sínu PSG á síðasta ári.