Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og samherjar hennar í Bayern München eru komnar með þýska meistaratitilinn í augsýn eftir jafntefli í stórleiknum gegn ríkjandi meisturum Wolfsburg á útivelli í dag, 1:1.
Liðin tvö eru langefst í deildinni og Wolfsburg hefur orðið þýskur meistari undanfarin fimm ár. Bayern tapaði sínum fyrstu stigum á tímabilinu í dag en er með tveggja stiga forskot þegar tveimur umferðum er ólokið, er með 55 stig gegn 53 stigum Wolfsburg.
Sydney Lohmann kom Wolfsburg yfir á 34. mínútu en pólski framherjinn Ewa Pajor jafnaði fyrir Wolfsburg þegar tíu mínútur voru eftir. Karólína var á meðal varamanna Bayern og kom ekki við sögu að þessu sinni.
Bayern á eftir að leika við Leverkusen á útivelli og Eintracht Frankfurt á heimavelli og vinni liðið báða leikina verður það þýskur meistari í fyrsta skipti í sex ár. Dagný Brynjarsdóttir varð einmitt meistari með liðinu árið 2015.
Alexandra Jóhannsdóttir og samherjar hennar í Eintracht Frankfurt áttu að spila við Turbine Potsdam en leiknum var frestað þar sem leikmaður Eintracht greindist með kórónuveiruna.