Jelena Cankovic skoraði tvívegis fyrir Rosengård þegar liðið tók á móti Djurgården í sænsku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag.
Sanne Troelsgaard kom Rosengård yfir strax á 8. mínútu áður en Cankovic bætti við tveimur mörkum til viðbótar en leiknum lauk með 3:0-sigri Rosengård.
Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosengård líkt og Guðrún Arnardóttir gerði í liði Djurgården.
Rosengård er með 12 stig eða fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar en Djurgården er með 3 stig í ellefta og næstneðsta sætinu.
Þá skoraði Jenna Hellstrom eina mark Örebro þegar liðið gerði 1:1-jafntefli gegn Eskilstuna á heimavelli en Berglind Rós Ágústsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir léku allan leikinn í liði Örebro.
Þetta var jafnframt fyrsti leikur Cecilíu með liðinu í deildinni á tímabilinu en Örebro er með 4 stig í níunda sæti deildarinnar.