Samúel skoraði í sigri

Samúel Kári Friðjónsson skoraði fyrir Viking í dag.
Samúel Kári Friðjónsson skoraði fyrir Viking í dag. Eggert Jóhannesson

Samúel Kári Friðjónsson kom Viking frá Stafangri á bragðið í góðum 3:1 sigri gegn Brann í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Mark Samúels Kára, sem lék fyrstu 70 mínúturnar í liði Viking, kom á 19. mínútu. Skömmu fyrir leikhlé jafnaði Daouda Bamba fyrir Brann og staðan því 1:1 í hálfleik.

Tvö mörk frá framherjanum knáa Veton Berisha, á 66. og 81. mínútu, gerðu hins vegar út um leikinn og hrósaði Viking því að lokum sigri.

Noregsmeistarar Bodø/Glimt hófu þá titilvörn sína með stæl þar sem Alfons Sampsted lék allan leikinn í öruggum 3:0 sigri gegn nýliðum Tromsö. Adam Örn Arnarson var ekki í leikmannahópi Tromsø í dag.

Þá hafði Molde betur gegn Kristiansund, 2:0, í Íslendingaslag. Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á sem varamaður á 77. mínútu hjá Molde og Brynjólfur Andersen Willumsson hlaut eldskírn sína í norsku úrvalsdeildinni þegar hann kom inn á í hálfleik hjá Kristiansund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert