Danska knattspyrnufélagið Esbjerg sagði Ólafi Helga Kristjánssyni upp störfum eftir að liðið tapaði fyrir Fredericia á heimavelli í kvöld, 1:2, í dönsku B-deildinni.
Með þessu tapi eru vonir Esbjerg um sæti í úrvalsdeildinni endanlega úr sögunni en liðið er tíu og ellefu stigum á eftir Viborg og Silkeborg og á þremur leikjum ólokið.
Ólafur tók við liði Esbjerg síðasta sumar, hætti þá störfum hjá FH þegar hann fékk tilboð frá danska félaginu. Esbjerg féll úr úrvalsdeildinni síðasta vor og Ólafur fékk það verkefni að koma félaginu aftur í hóp þeirra bestu.
Á heimasíðu Esbjerg er sagt að ástæða brottrekstursins sé úrslit leikja liðsins seinni hluta tímabilsins en það stóð á tímabili mjög vel að vígi í baráttunni um að fara upp.
„Eftir flotta byrjun á tímabilinu verðum við að viðurkenna að stigasöfnunin eftir vetrarfríið hefur ekki verið sem skyldi og takmark okkar um að komast aftur í úrvalsdeildina næst ekki. Þar með setjum við félaginu ný markmið fyrir framtíðina og kveðjum Ólaf Kristjánsson. Við óskum Ólafi góðs gengis í framtíðinni og þökkum honum fyrir gott samstarf," segir Jimmi Nagel Jacobsen íþróttastjóri Esbjerg á heimasíðunni.
Fram kemur að Lars Vind, þjálfari úr akademíu Esbjerg, mun stýra liðinu í síðustu þremur leikjunum í vor en hafin sé leit að nýjum aðalþjálfara.