Íslendingaliðið Silkeborg er komið upp í dönsku úrvalsdeildina í knattspyrnu eftir að annað Íslendingalið, Esbjerg, undir stjórn Ólafs H. Kristjánssonar, tapaði í kvöld fyrir Fredericia, 1:2.
Esbjerg varð að vinna fjóra síðustu leiki sína til að eiga möguleika á að skáka annaðhvort Viborg eða Silkeborg, sem eru bæði komin upp.
Kjartan Henry Finnbogason lék fyrsta klukkutímann með Esbjerg en Andri Rúnar Bjarnason var á varamannabekk liðsins og kom ekkert við sögu. Elías Rafn Ólafsson varði mark Fredericia sem er í fimmta sæti og átti ekki lengur möguleika í toppbaráttnni.
Viborg er með 66 stig og Silkeborg 65 en Esbjerg er með 55 stig og á þrjá leiki eftir. Stefán Teitur Þórðarson leikur með Silkeborg og Patrik Sigurður Gunnarsson ver mark liðsins sem lánsmaður frá Brentford á Englandi.