Gianluigi Buffon, markvörður Juventus á Ítalíu, hefur staðfest að hann muni yfirgefa félagið í annað sinn á ferlinum þegar yfirstandandi keppnistímabili lýkur. Buffon segist ekki búinn að ákveða hvort hann haldi áfram að spila eður ei.
„Þessum fallega og afar langa tíma með Juve lýkur endanlega á þessu ári. Annaðhvort hætti ég að spila eða ég finn einhverja lausn þar sem ég finn fyrir hvatningu til þess að spila eða upplifa eitthvað nýtt. Ég mun skoða það,“ sagði hann í samtali við beIN Sports í dag.
Buffon hefur leikið með Juventus í 20 ár, að undanskildu tímabilinu 2018/2019, þegar hann samdi við París Saint-Germain. Hann samdi að nýju við Juventus sumarið 2019 en nú lýkur dvöl hans endanlega.
„Mér finnst sem ég hafi gefið Juve allt sem ég átti. Ég hef líka fengið allt til baka og tel að það sé ekki hægt að gera meira en þetta,“ bætti hann við.
Buffon vann ítölsku A-deildina 10 sinnum á ferli sínum með Juventus, auk þess að vinna þrisvar til silfurverðlauna í Meistaradeild Evrópu. Þá varð hann heimsmeistari með Ítalíu árið 2006.