Næ vonandi þarnæsta leik – Birkir verið frábær

Hólmbert Aron Friðjónsson á æfingu með íslenska landsliðinu.
Hólmbert Aron Friðjónsson á æfingu með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hólmbert Aron Friðjónsson landsliðsmaður í knattspyrnu vonast til þess að vera leikfær fyrir aðra umferð í umspilinu um sæti í ítölsku A-deildinni en hann hefur misst af síðustu leikjum Brescia vegna meiðsla í hné.

Brescia hefur verið á góðri siglingu síðustu vikurnar og tryggði sér í gær sæti í umspilinu með útisigri á Monza, 2:0, en liðið vann fjóra síðustu leiki sína í deildinni. Einu ósigrarnir í síðustu fjórtán leikjum hafa verið gegn tveimur efstu liðunum, Empoli og Salernitana, sem eru komin upp í A-deildina. Birkir Bjarnason hefur verið í lykilhlutverki hjá Brescia seinni hluta tímabilsins.

„Við erum á mjög góðu skriði og höldum því vonandi áfram á fimmtudaginn þegar við mætum Cittadella. Þeir enduðu stigi fyrir ofan okkur og fá því heimaleikinn, og nægir jafntefli til að komast áfram. Skrýtnar reglur en við verðum bara að vinna. Ég næ ekki þeim leik en ef við vinnum verð ég vonandi leikfær í næsta leik þar á eftir,“ sagði Hólmbert við mbl.is í dag.

Hann tók undir mikilvægi Birkis fyrir lið Brescia. „Já, hann er búinn að vera frábær, skora mörk og leggja þau upp. Hann hefur verið mikilvægasti leikmaður liðsins í síðustu leikjum,“ sagði Hólmbert.

Framherjinn kom til Brescia síðasta haust frá Aalesund í Noregi en hefur verið með eindæmum óheppinn með meiðsli í vetur, gat ekki byrjað að spila fyrr en eftir áramótin og hefur aðeins náð að taka þátt í tíu leikjum í B-deildinni á tímabilinu. Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið.

„Nú er aðalmálið fyrir mig að eiga gott undirbúningstímabil í sumar. Það var erfitt að koma inn í liðið á miðju tímabili, sérstaklega eftir löng meiðsli, auk þess sem skipt var nokkrum sinnum um þjálfara. Ég er ennþá að koma mér inn í hlutina og læra tungumálið en þetta er allt á réttri leið," sagði Hólmbert Aron Friðjónsson.

Cittadella og Brescia mætast á fimmtudag og sömuleiðis Venezia og Chievo en þessi lið enduðu í sætum fimm til átta í deildinni. Sigurliðin í þessum leikjum mæta síðan Monza og Lecce í undanúrslitum umspilsins og að lokum verður einn úrslitaleikur um sæti í A-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert